Hæjjjj!! segja Litlir Bleikir Fíla í dag og ADHD kisan bætir svona átján joðum við kveðjuna.
Úti snjóar og snjóar, en Litlir Bleikir Fílar geta með engu móti skilið hvers vegna fólki kemur það eitthvað á óvart. Það er nú einu sinni kominn miður mars! ADHD kisan elskar þegar það snjóar þegar eru ekki jól eða jólin alveg að koma. Í fyrra þegar það snjóaði 1. maí, flestum til mikillar mæðu, fór ADHD kisan út á Stiga sleðann sinn og renndi sér niður Laugarveginn.
Litlir Bleikir Fílar munu ekki vera viðverandi í dag vegna undirbúnings fyrir árshátíð sem þeir eru að fara á, á morgunn. Þeir eru búnir að vera á þessari megrun undanfarna daga:
|
Einn greip bátur og fílanir eru pakksaddir. |
Þið vitið hvernig þetta er. Kona ein ætlar á árshátíð. Stendur grenjandi fyrir framan fataskápinn og á ekkert nema Bros Boli sem á stendur: Opnun Olís bensínstöðvar á Eyrarbakka 2004 eða Kvennahlaupið '94 ,,Koma svo stelpur!"
Það er ekki hægt að fara í svoleiðis á árshátíð, onei nei.
Kona fer og kaupir sér kjól sem er svartur eins og allir hinir kjólarnir hennar og lofar sjálfri sér að nota hann ofsalega mikið og oft, eins og hún gerði með alla hina svörtu kjólana sína.
,,Og hann passar við allt-líka gallabuxur"! ....glymur í ungfrú-ísland-lenti-í-þriðja-sæti-ég-passa-bara-í-xxxsmall-afgreiðslustúlkunni þegar hún rennir kortinu fyrir svarta kjólnum sem er alveg eins og allir hinir hámarks praktísku svörtu kjólarnir sem sitja heima inní skáp og bíða eftir að vera gefnir í Rauða Krossinn. Kona fer kát heim en passar að henda pokanum svo kallinn taki ekki eftir þessari nýjustu viðbót við stórskotaflota svartra kjóla sem heimilið býr yfir. Allir mjög praktískir, og grennandi, og svartir, og ,,passa við gallabuxur."
Tíminn líður og konan styttir sér stundir við biðina með því að krulla tuttuguogfimm sinnum á sér hárið en endar alltaf eins og púðluhundur sem hefur gengið undir raflostmeðferð við krónísku þunglyndi.
|
Að krulla eða krulla ekki. |
Sem sagt: ekki krulla hárið. Þá snýr konan sér að því að bögglast við að mála sig fyrir stóra kvöldið. Sú ætlar aldeilis að vera fín, með gervi augnhár og bara det hele. Finnur sér mynd af einhverri stórstjörnunni sem er óaðfinnanleg til fara í smettinu. Konan þessi er heldur betur útsjónarsöm og prentar út myndina af fegurðardísinni, límir hana á spegilinn og ætlar bara að kópíera lúkkið. Hún er algjörlega með þetta, þessi.
Útkoman varð hinsvegar: Stjórstjarna vs. Krusty the Clown:
|
Fyrirmyndin |
|
Útkoman |
Allt gengur á afturfótunum hjá konunni. Það verður bara að vera lambakrulluörbylgjuofnsslysið og trúðasminkið en konan getur þá allavega huggað sig við að hennar bíður svartur, praktískur, grennandi kjóll (sem passar líka við gallabuxur) og hann mun bjarga kvöldinu! Það og sexfaldur romm í kók, en konan er farin að íhuga að byrja kvöldið á barnum. Og eyða kvöldinu á barnum.
Nú er það ekkert sem heitir að fara í kjólinn. Einn, tveir og renna uuu....renna uuuu....renna....reee...............konan getur ekki rennt honum upp.
Hann er of lítill; hvernig getur hann verið of lítill??
Notaði afgreiðslustúlkan kranabíl til að renna honum upp í búðinni? Var konan óvart í ullarpeysu þegar hún reyndi að klæða sig í hann núna? Nei, konan kíkti; hún var bara alls ekkert í ullarpeysu. Svo er konunni litið niður, og hvað blasir þar við: engin önnur en TÚRBUMBAN!
(bomm, bomm booooooommmm...smá dramatík) Hvað gerir kona nú? Hún útúrkrulluð, trúðamáluð örvæntingarfull konugæs sem með jólasveinavömb og það er korter í árshátíð.
Nú eru góð ráð dýr. Konan sest niður, hálf í kjólnum og hugsar stíft. Hún hugsar um afgreiðslukonuna sem renndi kjólnum upp á henni áreynslulaust og hvernig sú stúlka ætti alvarlega að íhuga feril í kraftlyftingum, því handsterk væri hún. Konan hugsaði um túrbumbuna sína og að samkvæmt óformlegum mælingum liti út fyrir að vera um það bil sjö mánaða óléttubumba. Og ef hún sæist á bar með sjöfalda drykkinn sinn (já við gerðum hann aðeins sterkari) og með sjö mánaða óléttubumbu þá myndi kvöldið eflaust enda hjá Félagsmálavöldum þar sem barnið yrði formlega tekið af henni við fæðingu.
En eftir drykklanga stund (hún fékk sér einn sjúss) var eins og kveikt væri á ljósperu þegar konan mundi það skyndilega. Hún rauk upp (og ignoraði hljóðið sem heyrðist þegar saumarnir vældu og grátbáðu hana um að þyrma lífi sínu) og opnaði fataskápinn. Eins og Jesús sjálfur hefði leitt hana að fataskápnum lá lausnin að vandamálinu ljóslifandi þarna inn á milli hnökraðra íþróttasokka og gamals gallapils sem keypt var á Benidorm og hefði ekki passað á fyrirbura á vökudeildinni.
|
HERE I COME TO SAVE THE DAY!! |
Þið getið sagt það sem ykkur finnst. Þið megið hlæja, flissa, brosa út í annað, hlæja inn í ykkur, brosa inní ykkur....gráta inní ykkur. Ömmunærbuxur, aðhaldsnærbuxur, bumbubanabrækur....jú margt er hægt að kalla þessa dásemd en konan kippir sér ekki upp við það. Nei, það kemur henni ekki við. Í kvöld ætlar hún að demba sér í einn áttfaldan á barnum (það er vont og það versnar) og fjandinn hafi það verður gert í risastórum, andlitslituðum, nýþröngum, mögulega kremjandi mikilvæg líffæri nærbrækum og það var EKKERT að fara stoppa konuna. Trúður eða ei.
Kona fer alsæl á árshátíð (þó ekki með fulla hreyfigetu og meðfylgjandi súrefniskútur hefði líka hjálpað) en kát er hún þó. Hún borðar, hún drekkur, hún dansar, hún drekkur, hún dettur, hún drekkur, hún pissar og drekkur. Sem sagt: árshátíð.
Þegar heim er komið og kallinn vill hnoðast á konunni þurfa þau að vekja bæði börnin til að hjálpa föður sínum að draga konuna úr aðhaldsbuxunum. Það tekst loks eftir mikil átök og konan er sátt við að losna úr prísundinni því hana grunar óþægilega mikið að lifrin hennar hafi færst í átökunum og sé núna einhverstaðar á milli herðablaðana á henni. Það, eða hún hefur fitnað á bakinu í kvöld. Bæði eru líklegir möguleikar.
Kona hefur strengt þess heit að kaupa sér ekki nýjan kjól fyrir næstu árshátíð heldur frekar getur hún hugsað sér að fara bara í kynskiptiaðgerð, taka inn hormóna og láta vaxa sér skegg, dýpka röddina, minnka brjóstin og bæta á sig limi. Lifa eins og maður í heilt ár og mæta á næstu árshátíð í buxum og jakka og bara hafa það heaví næs. Engar nærbuxur. Engin megrun. Ekkert gerviaugnháralím sem límdi saman annað augnlokið. Ekkert vesen. Bara mottumars. Kósý.
|
HANN ER AÐ FARA Á BALL! LA LA LA ! |
Litlir Bleikir Fílar og ADHD kisan munu örugglega kasta í ykkur kveðju á morgunn. Í henni verður líklegasti vínandi. Það er bara þannig sem þeir rúlla...á litlum bleikum þríhjólum. Bless í bili!